NÆSTU NÁMSKEIÐ

Akureyri, apríl 2018

SÍMENNTUN H.A. – SKRÁ SIG!

Reykjavík, apríl 2018

ENDURMENNTUN HÍ, SKRÁ SIG!

FACEBOOK FYRIR VINNUSTAÐINN – WORKPLACE BY FACEBOOK

Með því að innleiða Facebook á vinnustaðinn (Workplace by Facebook) má ná fram mörgum jákvæðum breytingum. Upplýsingaflæði innanhúss verður auðveldara, starfsfólk er betur upplýst og jafnóðum, samtöl í tölvupóstum verða færri og fundum fækkar.

Samskipti í rauntíma kalla á ný vinnubrögð sem geta sparað fjármuni, aukið afköst og veitt möguleika á nýjum leiðum í samvinnu. Ávinningurinn getur m.a. falist í aukinni vinnugleði, auknu trausti meðal starfsfólks sem og fjárhagslegum ábata.

“Workplace by Facebook” eða “Facebook fyrir vinnustaðinn” er verkfæri, sem sífellt fleiri fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök eru að taka í notkun. Í því sambandi má nefna erlend fyrirtæki eins og: Booking.com, WWF, Discovery, Starbucks, Financial Times, Rema 1000 í Noregi og fjöldan allan af minni fyrirtækjum. Hérlendis má af stærri notendum nefna; Eimskip, Nýherja og Kennarasamband Íslands.

“Facebook fyrir vinnustaðinn” er ókeypis fyrir menntastofnanir og félagasamtök og því upplagt að skoða möguleikann á að taka verkfærið í notkun þar. Önnur fyrirtæki greiða ákveðna fasta upphæð á mánuði fyrir hvern starfsmann allt eftir stærð og umsvifum.

Aðalkosturinn við að tengja vinnustaðinn við Facebook felst í því að breyta því hvernig starfsemin fer fram. Með markvissri notkun á “Facebook fyrir vinnustaðinn” má draga verulega úr fjölda funda, sérstaklega þeirra sem fjalla um stöðu verkefna, því starfsmenn eru upplýstir jafnóðum um stöðu mála og þróun í gegnum lifandi samskipti. Þá má t.d. nýta tímann, sem aflögu verður, til að hrinda hugmyndum í framkvæmd.

Flestir þekkja viðmót Facebook og eiga því auðvelt með að tileinka sér vinnu- og samskiptaformið. Tæki eins og skilaboð/messenger, beinar útsendingar, myndir og fleira er til taks til að auðvelda samskipti og upplýsingamiðlun. Hægt er að vinna með öðrum fyrirtækjum, sem einnig eru tengd “Facebook fyrir vinnustaðinn”. Fréttastreymið sér til þess að allir starfsmenn vita hvað er að gerast, jafnóðum og það gerist – enginn þarf lengur að kvarta yfir því að hafa ekki fengið að vita neitt. Einnig er mögulegt að gera ákveðin tímafrek samskipti sjálfvirk.
Í pakkanum eru auk þessa ýmis mælitæki sem aðstoða stjórnendur við að leiða vinnuna í þá átt sem ætlast er til.
Facebook vinnuprófíllinn er ekki tengdur annarri viðveru á Facebook, þannig eru engin tengsl á milli FB vinnu og FB persónulegs prófíls. Öryggi og eignarhald gagna er tryggt með bestu tækjum sem völ er á.

Þetta námskeið er grunnnámskeið í “Facebook fyrir vinnustaðinn”. Námskeiðið er hagnýtt og er farið yfir uppsetningu á kerfinu og hvernig við tengjum starfsfólk og byggjum upp okkar eigin samskipti.
Farið er yfir þau vandræði sem geta skapast við innleiðingu nýrra vinnubragða og hvernig hægt er að hjálpast að við að taka á þeim. Farið er yfir bæði tækni og samskipti og hvaða möguleikar gefast til að breyta vinnuferli í takt við upplýsingaflæði i rauntíma. Meginhluti námskeiðsins snýr að uppsetningu og grunnferlum.
Til þess að þátttakendur kynnist innleiðingu í raun kemur gestur á námskeiðið frá vinnustað sem hefur tekið Facebook í notkun og ræðir hann bæði kosti og galla af breytingunni.

Á námskeiðinu er fjallað um:
• Skráningu og uppsetningu á Facebook fyrir vinnustaðinn.
• Grunnuppsetningu, starfsmenn tengdir/aðrir tengdir.
• Hópa og hlutverk þeirra.
• Breytingar á vinnuferli, hvað er gott og hvað ber að varast?
• Hvernig breytist vinnuferlið?
• Ýmsa möguleika í kerfinu – hagnýt yfirferð.

Ávinningur þinn:
• Losnar við flækjurnar í uppsetningu og veist að hverju þú gengur.
• Innsýn í möguleika “Facebook fyrir vinnustaðinn” og hvaða breytinga má vænta í kjölfar innleiðingar.
• Hagnýt notkun á kerfinu og hvernig hægt er að aðstoða samstarfsfólk til að nýta sér það á sem bestan hátt.
• Seldu breytinguna innanhúss.

Fyrir hverja:
Starfsmenn minni og stærri fyrirtækja, stofnana, skóla og félagasamtaka sem hafa áhuga á að innleiða nýja samskiptatækni og vinnubrögð. Einnig ætlað þeim sem vilja öðlast innsýn í hagnýta grunntækni og grunnhugmyndafræðina á bak við “Facebook fyrir vinnustaðinn”.

Aðrar upplýsingar:
Þátttakendur eru beðnir um að koma með fartölvu (töflur og símar geta verið hliðartæki, en ekki aðalvinnutækið) með vel uppfærðum vafrara (helst Chrome). Þátttakendur þurfa að vera skráðir á Facebook og hafa aðgang að vinnunetfangi online. Þátttakendur þurfa auk þess að hafa heimild fyrir því að setja vinnustaðinn upp í kerfinu vilji þeir fylgja leiðbeiningunum skref fyrir skref. Annars er hægt að taka vinnubókina og framkvæma verkið að námskeiði loknu.

2017-11-03T13:22:01+00:00