Mark Zuckerberg, Facebook

Dagurinn þegar Facebook breyttist?

Facebook hefur tilkynnt stórfelldar breytingar á hegðun fréttastreymis á miðlinum. Mark Zuckerberg setti sér sem nýársheit að “fixa Facebook” og á næstu vikum slá stærstu breytingarnar í gegn að undangengnum prófunartíma.

Og hvað þýðir þetta fyrir eigendur Facebook síðna fyrirtækja og félagsamtaka og markaðssetningu á Facebook svona almennt?

M. Zuckerberg segir: “Við erum að gera stórfelldar breytingar á því hvernig við byggjum Facebook upp. Ég er að breyta markmiðinu sem framleiðsluteymi okkar starfar eftir frá því að finna viðeigandi efni til að eiga innihaldsríkari samskipti”.

Og hann heldur áfram: “….þú munt sjá færri opinberar (public) uppfærslur eins og uppfærslur frá fyrirtækjum, vörumerkjum og miðlum. Það efni sem þú munt sjá frá þessum aðilum verður vegið eftir möguleika innihaldsins til að hvetja til innihaldsríkari samskipta á milli fólks.”

Þetta þýðir í stuttu máli að Facebook er að fara frá hugmyndinni um “reach” þ.e. að efni nái til sem flestra – í “engagement” eða virkni – þ.e. að sem flestir hafi raunverulegan áhuga fyrir efninu og það hreyfi við samfélagi viðkomandi á greinilegan hátt með auknum samskiptum í hópnum sjálfum. Þetta þýðir til dæmis að uppfærsla á FB síðu þar sem notendur fara að spjalla í spjallkerfinu sín á milli um uppfærsluna hefur margfeldisáhrif á birtingar miðað við til dæmis uppfærslu þar sem einungis er um að ræða samskipti milli notanda og síðu.

Þetta þýðir stórfelldar breytingar í aðferðafræðinni fyrir fyrirtæki sem nýta Facebook til að vekja athygli á vöru sinni og þjónustu. Breytingarnar hafa verið í kortunum lengi og í sjálfu sér ekki óvæntar. Fyrir nokkrum mánuðum hóf Facebook að draga úr birtingum á efni frá síðum, sem metið er sem “of auglýsingaþrungið”. Þ.e. nálgun uppfærslna sem innihalda einungis upplýsingar um vöru og þjónustu hafa átt þrengri aðgang að fréttastreyminu en fyrr á árum.

Og hvað er þá til ráða?

Í fyrsta lagi þá þurfa fyrirtæki að endurskoða hvernig þau tala við markaðinn því fyrirtæki sem “skapa samfélag” munu blómstra. Það eru samskiptin en ekki fjöldinn sem þú nærð í sem fyrirtæki sem skiptir máli þegar kemur að efnisveitunni. Þar ber hæst að framleiða áhugavert efni og innihald, sem snertir við mörgum og hvetur til samskipta. T.d. munum við sjá rífandi aukningu í beinum útsendingum, söguframleiðslu og hópum þar sem umræða um vörur og þjónustu fara fram. Sól hinna skapandi einstaklinga í ranni hvers fyrirtækis mun virkilega rísa í kjölfarið á þessum breytingum.

Í öðru lagi þá þurfa fyrirtæki, sem nota sjálfvirkar uppfærslur að taka vinnuferlið til endurskoðunar. Því miður, þá er tími þeirra líka næstum liðinn með þessum breytingum og mikilvægt að gefa hverri uppfærslu “personulegan svip” séu fyrirtæki með margar FB síður og aðra samfélagsmiðla í gangi.

Í þriðja lagi þá þurfa fyrirtæki nú virkilega að læra að nýta auglýsingakerfið á Facebook. Til að sjá raunverulegan árangur af fjárfestingu fyrirtækisins á miðlinum, þá verður nálgun við markhópinn í gegnum auglýsingar (ekki búst) að gerast á markvissan og réttan hátt. Góðu fréttirnar eru að auglýsingar sem eru unnar vel og vandlega og birtar á bæði Facebook og Instagram eru bæði árangursríkar og ódýrar.

Það sem skiptir samt höfuðmáli er að með breytingunum er Facebook að hindra aðgengi óprúttinna aðila að fréttastreymi notenda. Það gildir bæði markaðsfólk, sem hefur nýtt sér alls kyns ódýr trix til að fanga athyglina og einnig framleiðendur rangra upplýsinga. Breytingin færir einnig Facebook nær upprunanum, sem er að tengja fólk, auka heilbrigða nálgun og samskipti fólks á milli.

Sem sagt skemmtilegur lærdómstími framundan. Kíktu á fyrirtækið þitt, vöruna þína og þjónustu og skoðaðu hvernig þú ætlar að bregðast við og breyta áherslum. Zuckerberg reiknar með því að tíminn sem við notum á Facebook (25-30% af internettíma heimsins) muni dala eitthvað, en í staðinn verða mun innihaldsríkari og leiða til hamingjusamlegri samskipta og áherslna. Sem sagt gæða Facebook tími!

Flestir stærstu fréttamiðlar heims hafa tekið málið upp í morgun, en hér má sjá uppfærslu Mark Zuckerberg um málið:

https://www.facebook.com/zuck/posts/10104413015393571

Webmom mun að sjálfsögðu eins og áður taka öll komandi námskeið í Facebook fræðum til bæna og vinna að því að aðstoða fyrirtæki og félagasamtök til að nýta sér breytingarnar á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Ekki málið! Næstu námskeið eru strax eftir páska í Endurmenntun H.Í. í Reykjavík og Símenntun H.A. á Akureyri.

Scroll to Top