Leggðu Lissabon að fótum þér – ENDURMENNTUN H.Í. 28.09.19

Dagar
Tímar
Mínútur

ENDURMENNTUN H.Í. REYKJAVÍK

Laug. 28. sept. kl. 13:00 – 16:00

Lissabon er spennandi áfangastaður allt árið, þó vor og haust séu væntanlega þægilegasti tíminn til að heimsækja þessa einstöku borg. Á námskeiðinu er áætlað að fara í þrjár sýndargönguferðir sem gefa mismunandi upplifanir af borginni.

Hver sýndargönguferð gefur þátttakendum hugmynd um áhugaverða áningarstaði og viðburði sem hægt er að njóta, s.s. kirkjur, söfn, garðar, áhugaverðar sögur, menningaráhrif, matur o.fl. Námskeiðið er fyrst og fremst hugsað sem innblástur til upplifunar, ekki er farið ítarlega í sögu, landafræði, samfélag eða önnur fræði.

Lissabon er elsta höfuðborg Vestur Evrópu og eina höfuðborg Evrópu sem liggur beint að Atlantshafinu. Stórborgarsvæðið er 11. fjölmennasta íbúasvæði í Evrópusambandinu. Lissabon er eins og Róm byggð á sjö hæðum og liggur við fljótið Tagus. En Lissabon á sér lengri sögu en Róm þótt Rómverjar hafi gert bæinn að höfuðstað héraðsins á sínum tíma. Á hæla Rómverjanna komu Márarnir sem héldu völdum á Íberíuskaganum í nokkur hundruð ár. En þá snéru Portúgalar blaðinu við, sendu Vasco da Gama í siglingatúr frá Lissabon og hann fann Indland, sem Kólumbus klikkaði á fimm árum áður. Með því tryggðu Portúgalir sér einokun á kryddverslun frá Austurlöndum fjær og ógrynni fjár. Lissabon varð í kjölfarið tekjuhæsti bær Evrópu í 200 ár. Portúgalir sigldu og versluðu um öll heimsins höf og þótt íbúar Portúgal séu ekki nema 10 milljónir er portúgalska sjötta útbreiddasta tungumál í heiminum enn þann dag í dag. Lissabon er suðupottur menningaráhrifa frá öllum heimshornum, þar sem fólk frá Brasilíu, Afríku, Karabíska hafinu, Indlandi og öðrum fjarlægum stöðum getur spjallað saman og við heimamenn um daginn og veginn. Íbúar Lissabon hafa svo sannarlega tekið þátt í fjölmenningarsamfélaginu í ríflega fimm hundruð ár. Og þess sjást merki um gjörvalla borgina.

Ávinningur þinn:
Þú færð:
• innblástur fyrir upplifun í Lissabon sem þú getur nýtt til að skapa minningar sem aldrei gleymast.
• hugmyndir að innihaldsríkum gönguferðum sem bera þig víða um borgina.
• hvatningu til að skoða fleiri staði í Lissabon en þá sem eru í alfaraleið.
• nýjar hugmyndir um það hvernig hægt er að ferðast og dvelja í einstöku menningarumhverfi á sjálfstæðan hátt.

Fyrir hverja:
Námskeiðið er fyrir alla sem hafa áhuga á því að ferðast til Lissabon og vilja upplifa aðra hlið borgarinnar en þá sem finnst í aðalverslunargötunni.

Kennsla:
Maríanna Friðjónsdóttir hefur varið síðustu árum sem stafrænn flækingur og lifað í ferðatösku stóran hluta ársins, þar sem hún hefur getað blandað vinnu við eitt af sínum stóru áhugamálum, sem er að „ganga borgir“. Lissabon hefur heltekið hjartað og fæturna og flækingurinn hefur leitað aftur og aftur í borgina sem býður upp á endalausar uppgötvanir. Maríanna er einnig vön að ferðast ein og hefur því á takteinum ýmis ráð sem koma til góða þeim sem vilja ferðast einir eða vera sjálfbjarga á ferðum um áhugaverða viðkomustaði.

Umsagnir ánægðra þátttakenda á öðrum námskeiðum Maríönnu

Mjög fróðlegt og gagnlegt.
Lifandi og góð kennsla.
Frábært viðmót og hvetjandi.
Frábær kennari.
Maríanna dásamleg í alla staði.
image_pdfimage_print
Scroll to Top