leitarvélabestun, kisa á heitu bílþaki í Coimbra, Portúgal, webmom.eu

Þaulnýttu myndirnar og kitlaðu leitarvélarnar

Mynd er ávallt góð leið til að ná til notandans, hvort sem um er að ræða efni, sem þú birtir á samfélagsmiðlum eða vefsíðu fyrirtækisins. Heilinn vinnur fyrr úr myndmáli en texta og myndrænt innihald á vefsíðum fær 94% meira áhorf en greinar, sem eingöngu eru byggðar á texta.

Notkun á viðeigandi grafík, myndum, myndböndum og öðrum sjónrænum upplýsingum getur selt vörur, upplýsingar og fleira. Enn mikivægara er að myndir geta ýtt undir jákvæða hegðun notandans og þar með haft áhrif á afdrif vefsíðunnar í leitarvélum. Við tölum mikið um “leitarvélabestun” þessi árin og myndir eru afgerandi og oft á tíðum þáttur sem gleymist í því ferli. Mikilvægi mynda fyrir staðsetningu vefsíðunnar í leitarvélum er slíkt að það skiptir öllu máli að vinna þennan hluta vefsíðunnar kórrétt. Webmom.eu er sífellt að detta yfir fyrirtæki, sem vandræðast með þennan þátt í efnisframleiðslunni og því koma hér nokkrar hagnýtar ábendingar sem hjálpa vefsíðunni þinni ofar í leitarvélunum með einföldum og áhrifaríkum aðgerðum sem eru margprófaðar í reynd.

Við skoðum þetta:

1. Nýttu og finndu réttu myndirnar.
2. Nýttu lykilorð í skráarnafni myndar.
3. Láttu “alt” textann vinna fullkomlega fyrir þig.
4. Nýttu skýringartextann
5. Notaðu rétta skráartegund.
6. Notaðu rétta myndastærð.

1. Nýttu og finndu réttu myndirnar.

Sagt á einfaldan hátt, þá er samhengi myndar og texta fyrsta boðorðið, sem verður að halda. Ef myndin er ekki í samhengi við textann, þýðir það misvísandi skilaboð og getur skaðað fremur en gert gagn. Ekki falla í þá freistni að setja inn einhverja mynd eingöngu til skreytingar, slíkt bætir ekki leitarvélastöðu efnisins.

Þú hefur ýmsa möguleika til að finna og nýta réttar myndir.

Upprunalegar myndir eru bestar. Þá er átt við myndir sem þú tekur og átt sjálf(ur). Flestir sem sinna vefvinnslu eru með kröftuga myndavél í vasanum – í snjallsímanum. Snjallsímar dagsins nýtast bæði til að taka hágæða ljósmyndir og myndbönd. Lærðu á myndavélina og einföld myndvinnsluforrit símans eins og Snapseed og þú ert með efni, sem er fullkomlega löglegt að nýta á vefsíðunni og í auglýsingum. Eigin myndir eru auðveldasta og ábatasamasta leiðin að góðri myndlýsingu.

Myndir af endalausum fundum eða öðru sem er eintóna og þar af leiðandi ekki áhugavert, getur staðið efninu þínu fyrir þrifum. Þá er að leita til myndabankanna. Síður eins og Pexels, Pixabay eða Unsplash bjóða upp á ókeypis CC0-leyfðar myndir. Ef buddan býður uppá aðkeyptar myndir er hægt að vera í áskrift hjá Shutterstock, kaupa einstakar myndir þaðan eða hjá t.d. iStock. Þessar síður bjóða uppá hágæða myndir í þúsundum afbrigða, sem hægt er að velja úr og nýta á mismunandi vegu fyrir minni aur en aðrar leiðir gætu boðið uppá.

Þú finnur fleiri upplýsingar um ókeypis myndabanka með því að smella hér: webmom.eu/okeypis-myndir

Að sjálfsögðu þurfa fyrirtæki oft að leita til atvinnuljósmyndara til að setja rétta mynd á vörumerkið. Ekki gleyma myndum af starfsfólki í því samhengi. Starfsfólkið er andlit fyrirtækisins og faglegar myndir af fólki selja þjónustu og vöru á persónulegri hátt en margt annað.

Ef þú hefur áhuga á að vinna myndir og texta, til dæmis að útbúa “infographics” eða myndrænar útgáfur af tölum eða öðrum upplýsingum – standa þér til boða forrit sem eru einföld og fljótleg í notkun – eins og t.d. Canva og PicMonkey. Hér geturðu lagað til myndir, búið til myndir, sett in texta og ýmis tilbúin grafíkbrot, unnið lagskipt og fleira.

2. Nýttu lykilorð í skráarnafni myndar.

Leitarvélar geta ekki lesið myndir eða vídeó á sama hátt og texta, þess vegna þurfum við að nota lýsandi texta til að segja leitarvélinni hvað myndin inniheldur. Myndavélar, myndir frá safnsíðum, símum og öðrum upprunalindum eru oftar en ekki skírðar almennum skráanöfnum sem aðstoða alls ekki leitarvélina við að túlka upplýsingar um myndina. Þess vegna skaltu ávalt endurskíra hverja myndaskrá með upplýsingum sem passa þér.

Til dæmis getur leitarvélin ekki skilið að hér fyrir neðan sé á ferðinni mynd af kisu í Coimbra, sem hefur smávægileg tengsl við myndvinnslu, nema ég tilgreini það á einhvern hátt. Óunnar upplýsingarnar sem myndu fylgja þessari mynd eru einmitt alls ekki í lagi ef þú skellir henni beint á vefsíðuna þína. Fylgifiskar myndarinnar eru gott dæmi um það sem við viljum ekki og getum lagað.

kisa á bláu bílþaki í Coimbra, Portúgal
Skýringatextar myndar geta spilað með texta og þannig aukið sýnileika efnis í leitarvélum.

Í fyrsta lagi þarf að breyta skráarnafninu. Allt of margir hlaða myndum beint á vefsíðuna án þess að leiða hugann að því að IMG_7760-EFFECTS.jpg eða DSC9209 séu kannski ekki heppilegt skráarnöfn, en þetta eru heitin sem koma beint af kúnni úr myndavélinni, símanum eða jafnvel Google photos. Væntanlega fjallar efnið þitt ekki um IMG eða DSC – kannski ertu að markaðssetja vörur fyrir kattaunnendur og þá er lykilorðið “kisa” væntanlega á lykilorðalistanum þínum.

Skráarnafn myndarinnar gefur leitarvélunum vísbendingu um hvað myndin inniheldur og býður einnig upp á einstakt tækifæri til að nýta leitarorðin þín. Veldu viðeigandi mynd fyrir efnið, settu inn viðeigandi leitarorð í skráarnafnið. Leitarorðið þarf að vera í samhengi við myndina, efnið og læsilegt fyrir bæði notendur og leitarvélarnar. Mundu þegar þú býrð til skráarnafn á mynd að nota ekki íslenska stafi og ekki millibil. Internetið getur hvorugt lesið og þú býður heim vandræðum fyrir leitarvélar, notkun og sýnileika ef þetta gleymist.

3. Láttu “alt” textann vinna fullkomlega fyrir þig.

“Alt” textinn eða “alternative text” fínstillir skráningu myndarinnar. Alt textinn býður upp á lýsingu á myndefninu og gefur til kynna mikilvægi myndarinnar í samhengi við efni síðunnar. Alt textinn er gjörnýttur af leitarvélum til að ákvarða innihald myndaskrárinnar og ákveða hvaða myndir eru hentugastar til að kynna sem svar við leitarfyrirspurn.

Höldum áfram með myndina okkar. Við gætum til dæmis notað “alt” textann: “Svört kisa þrífur sig á bláu bílþaki í Coimbra, Portúgal” eða “svört kisa notuð sem dæmi um alt-texta og leitarvélabestun”. Í síðara dæminu erum við að koma að leitarorðum, sem í sjálfu sér lýsa ekki myndinni sem slíkri, en koma við efninu, sem myndin tengist án þess að virka sem spam. Alt texta má einnig nota þar sem ekki er hægt að sjá myndina sjálfa.

alt-textinn er afgerandi fyrir sýnileika myndar í leitarvélum, webmom.eu

Skráarnöfn og Alt-textinn eiga það sameiginlegt að hafir þú valið viðeigandi myndir og gefið viðeigandi skráarnafn, þá ætti að vera skynsamlegt að fínstilla alt-textann líka. En ekki nýta þessi tækifæri til að spamma eða senda leitarvélarnar á ranga braut. Sömu reglur gilda um skráartexta og alt-texta eins og annað innihald á vefnum þínum. Textinn á að vera málfræðilega réttur, flæði samfellt og leitarorð og leitarsetningar eiga að falla rétt að málnotkun.

Mjög einfalt er að bæta við “alt” texta í WordPress. Farðu í skráarsafnið þitt, veldu þá mynd sem þú ætlar að vinna með, sláðu lýsinguna inn í “alt-texta” hlutann og geymdu. Sé myndin þegar tengd færslu, smelltu þá einfaldlega á myndina og veldu blýantinn til að breyta og slærð lýsinguna þína inn í hutanum “alt-text”.

4. Nýttu skýringartextann.

Skýringartexti (captions) bætir oft frekara samhengi við mynd og samsvarandi texta. Skýringartextar eru aðskildir frá meginmáli textans.

skýringartexti með mynd getur aukið sýnileika í leitarvélum, webmom.eu
Skýringartexti með mynd, sem er í samhengi við efni greinarinnar, getur aukið sýnileikann í leitarvélum.

Fólk hefur tilhneigingu til að lesa textann undir mynd þegar síðan er skimuð. Að meðaltali fær skýringartexti myndar 300% meiri athygli en heildartextinn í greininni. En allar myndir þurfa ekki skýringatexta ef nærliggjandi texti og mynd hanga vel saman. Skýringartextinn gefur stundum bónus í leitarvélarsamhengi þar sem leitarvélarnar hafa tilhneigingu til að halda uppá myndir sem tengjast innihaldi í næsta nágrenni, svo að segja. Það þýðir að sé mynd, skráarheiti og alt-texti í beinu samhengi við texta sem stendur beint fyrir ofan, við hlið eða undir mynd, þarf ekki endilega að bæta við skýringartexta. Í skýringartexta er að sjálfsögðu einnig hægt að nota orð úr lykilorða eða lykilsetningalistanum þínum – en í réttu samhengi.

Jafn einfalt er að bæta við skýringartexta og nefnt er hér að ofan hvað varðar að bæta við “alt” texta. En ávallt er best að gera hlutina nákvæmlega rétt frá byrjun og um leið og myndinni er hlaðið upp.

5. Notaðu rétta skráartegund.

Útgangspunkturinn í mínum pistli er að í flestum tilvikum ættu vefritstjórar að nota myndskrár á forminu JPG. Í flestum tilvikum uppfyllir það skráarform allar þarfir hvað varðar gæði, þyngd og þar með hraða og leitarvélabestun.

En við getum einnig nýt PNG (Portable Network Graphics) og GIF (Graphics Interchange Format). Helsti munurinn felst í þyngd skránna og þar með möguleikum að hraða síðunni. Hraði síðunnar er einmitt afar mikilvægur þegar kemur að því að vera í uppáhaldi hjá leitarvélunum, sérstaklega þegar kemur að símum og töflum. Hér getur minni hraði dregið verulega úr sýnileika efnis frá síðunni í leitarvélum.

JPG skrår er hægt að þjappa án þess að tapa gæðum og því er upplagt að nýta það skráarform fyrir alls konar myndir, en ef myndinni er breytt margoft og vistuð og slík afrit notuð til nýrra breytinga, mun myndin tapa gæðum.

PNG skrår tapa ekki gæðum þótt skráin sé geymd og henni sé breytt aftur og aftur – og sértu að nota grafík á gagnsæjum bakgrunni er PNG formið sem þú vinnur með. En PNG nýtist einmitt best fyrir litlar skreytingarmyndir og lógó. Það getur hins vegar skaðað vefinn þinn all verulega að nota PNG hamslaust og í miklu magni.

GIF skrár eru ekki þungar skrár og skaðast ekki í gæðum við afrit en styðja heldur ekki eins mörg litaafbrigði og PNG eða JPG. GIF nýtist best í litlar eða meðal-stórar hreyfimyndir.

Stundum gætir þú þurft að breyta mynd úr einu formati yfir á annað og í því skyni eru mörg hjálpartæki á netinu. Einn möguleiki er t.d. www.coolutils.com – en auðvelt er að finna það sem hverjum hentar með því t.d. að googla “file converter”. Varist samt að látta lokkast til að hlaða niður einhverri óværu.

6. Notaðu rétta myndastærð.

Stærð myndaskrár er oftar en ekki mun meiri en þú þarft á að halda, vegna þeirra upplýsinga sem geymdar eru í myndinni. Minni þyngd á skrá þýðir oft ósýnileg áhrif á myndgæði en gefur fleiri jákvæð áhrif.
Ef þú minnkar þunga myndarinnar þá hraðar þú hleðslutíma vefsíðunnar, sem er árangursrík aðferð við leitarvélabestunina. Minni skrá spara þér einnig geymslupláss á netþjóninum og bandbreidd sem oft á tíðum eru beinharðir peningar.

Þú getur pressað myndir með því að hlaða þeim upp hér: compressor.io
Eða þú getur valið um mismunandi þyngd ef þú notar t.d. picmonkey.com til að velja rétta stærð og þyngd.

stór og þung mynd hægir á vefsíðunni nýttu myndvinnslu, webmom.eu
Þessa mynd mætti nota til að veggfóðra með en hún hægir á vefsíðunni þinni. Hæg og treg vefsíða á ekki auðvelt uppdráttar í leitarvélum.

Á netinu finnast mörg tæki til að draga úr stærð myndskráa. Einnig býður WordPress uppá margar viðbætur sem minnka þyngd myndanna, en best af öllu er að stjórna ferðinni sjálfur frá byrjun. Það er tvennt sem við þurfum að hafa í huga. Annars vegar stærð myndarinnar (pixlar á breidd og hæð) og hins vegar þyngdin (MB, kB).

stærð og þyng myndar skiptir sköpum fyrir hraða vefsíðunar, webmom.eu
Minnkum myndina í staðlaða myndastærð vefsíðunnar (í pixlum) og veljum þyngdina kB. Notaðu það forrit sem þér hentar best. Hér er picmonkey.com

Hver einasta vefsíða ætti að hafa skilgreindar myndastærðir. Þá er átt við t.d. að allar myndir, sem fylgja innihaldi séu af ákveðinni (ákveðnum) fyrirfram gerðum stærðum og ekki sé hvikað frá því. Til dæmis geta myndir sem fylgja fréttum verið af stærðinni 900 til 1000 pix á breidd og myndir af starfsfólki 500 pix á breidd, allt eftir því hvað hentar hönnun og notkun hverrar vefsíðu. Þetta tryggir samfellu í útliti og hraða síðunnar. Þeir sem vinna við uppsetningu efnis á vefsíðum verða að hafa grunnþekkingu á einföldustu aðferðum í myndvinnslu hvað varðar stærð og þyngd, annað er ávísun á slys í framtíðinni.

Picmonkey.com býður uppá hraðvirkar og einfaldar aðgerðir, en önnur þægileg forrit eru myndvinnsluforrit Microsoft, reduceimages.com/ eða Adobe Photoshop. Ef þú hins vegar nýtir WordPress til að breyta stærð, þá hefur það engin áhrif á þyngd myndarinnar eða gefur aðra forgjöf nema að breyta pixlastærðinni. Slepptu því að nýta þann möguleika.

Scroll to Top